5.4.2009 | 01:25
Frá Hjarta til Hjarta
Hér er ávarp sem ég flutti á ráðstefnu SGI samtaka búddhista í Ráðhúsi Reykjavíkur um daginn. Planið var að fá að flytja það fyrir fólkið sem þar var en uppsetninginn á ráðstefnuni leyfði það ekki, hinsvegar var hún öll tekin upp á cameru og flutti ég ræðuna fyrir hana. Ég á von á að fá videoið sent bráðlega, þá mun ég setja það hér inn.
Komið þið öll sæl. Ég heiti Dagbjartur og ég er bahá'í trúar.
Mig langar til að þakka friðar og mannúðarsamtökum búddista fyrir að efna til þessa umræðufundar hér í ráðhúsinu um hvernig við öll í sameiningu getum gert heiminn að betri stað. Hvernig við getum skapað nýtt samfélag sem byggir á virðingu fyrir öðrum. Þjónustu við mannkynið. Virðingu fyrir umhverfi mannsins og auðlindum jarðar. Heilshugar stuðningi við mannréttindi.
Yfirskrift ráðstefnunnar "Frá hjarta til hjarta" segir mér allt sem segja þarf.
Hérna þarf ekki að tala til vitsmuna eða sérfræðiþekkingar á þröngum sviðum efnishyggjunnar. Hér er hægt að tala tungumál andans.
Og það er nákvæmlega það sem ég ætla að reyna að gera.
"Það sem Drottinn hefur ákvarðað sem æðsta læknisdóminn og máttugasta meðalið til græðingar alls heimsins er eining allra þjóða hans í einum allsherjarmálstað, einni sameiginlegri trú."
Þessi orð eru úr ritum bahá'í trúarinnar. Þetta eru orð Bahá'u'lláh sem við lítum á sem opinberanda Guðs fyrir okkar tíma.
Ég ætla að deila með ykkur skilningi mínum á þeim. Ég held nefnilega að þau séu upphafið á þeirri vegferð sem þessi heimur í upplausn á fyrir höndum. Ég tel að þau séu forsenda þess að hægt sé að bæta heiminn. Gera hann að stað þar sem ríkir friður, réttlæti og gagnkvæmur skilningur. Virðing fyrir menningarlegri fjölbreytni. Virðing fyrir móður jörð og gjöfum hennar.
Það er ekki hægt að græða sár heimsins og gera hann að betri stað með því að einblína á velferð eins lands eða hamingju einnar þjóðar. Allt mannkynið er eins og einn líkami, ein lífheild. Ef sár opnast á einum stað líkamans, þjáist allur líkaminn.
Að ímynda sér að við sem þjóð eða kynþáttur getum haft það gott meðan aðrir hafa það slæmt er mesta blekking tilverunnar. Það er líka orsök mestu meinsemdanna í heiminum: Fátæktar. Fordóma. Arðráns. Ofbeldis. Glæpa.
Hver er lausnin? Ég nefndi hana hér áðan: "...eining allra þjóða heimsins í einum allsherjarmálstað, einni sameiginlegri trú."
Í þessum allsherjarmálstað viðurkenna menn að mannkynið er eitt og trú þess ein. Trúin er eins og regn sem fellur af himnum í ýmiskonar keröld. Eitt keraldið gæti hugsanlega heitið kristindómur. Annað islam. Þriðja gyðingdómur. Þessi keröld eru öll ólíkrar gerðar. Þau eru af ýmsum uppruna, úr mismunandi efni. En það er sama vatnið í þeim öllum.
Hugsum okkur heim þar sem menn hafa gleymt sínum gömlu hleypidómum og hugarfóstrum. Þeir sjá andlega leiðtoga mannkynsins, Búddha, Móse, Jesú Krist, Múhammeð sem ljós frá einni og sömu sól. Ljósið kann að skína inn um ýmiskonar glugga, en eiginleiki þess er að upplýsa, veita birtu, uppljóma umhverfi mannsins og manninn sjálfan.
Hvað er að slíkri hugmynd? Hvaða illt gæti hún haft í för með sér? Hvaða skaða gæti hún valdið? Myndi hún valda stríði, hermdarverkum, hörmungum, sorg og dauða?
Nei þvert á móti. Hún myndi opna augu mannanna fyrir því að þeir eru ein fjölskylda, ein og sama ættkvísl. Þeir myndu skilja að þeir bera ábyrgð hver á öðrum og öllu heimssamfélaginu með öllu sem því fylgir fyrir umhverfi okkar, menntun, jafnrétti, frelsi, einingu og frið.
Þessi ráðstefna ber nafnið "Frá hjarta til hjarta". Ég hef deilt með ykkur mínum hugmyndum um hvernig má gera heiminn að betri stað. Ég hef reynt að gera það af hjartans einlægni og virðingu við ykkur öll og ykkar sjónarmið. Ég vona að ekkert sem ég hef sagt valdi misskilningi eða hneykslun. Mér þykir vænt um ykkur öll og óska ykkur blessunar Guðs, uppljómunar og andlegrar hamingju í öllum veröldum Guðs.
Kærar þakkir fyrir áheyrnina.
Um bloggið
Dagbjartur Ágúst Eðvarðsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta hefur verið flott ræða hjá þér.
Hilmar Gunnlaugsson, 5.4.2009 kl. 20:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.